Dæmi um lyfjakostnað

Hér til hliðar verða birt dæmi um lyfjakostnað fyrir ákveðin lyf og lyfjaflokka. Dæmin byggja á raunverulegum gögnum úr tölvukerfi Lyfjavers fyrir árið 2012. Skoðað er hvernig lyfjakostnaður einstaklinga myndi reiknast út í nýju greiðsluþátttökukerfi og hann borinn saman við raunverulegan lyfjakostnað fyrir árið 2012. Valdir eru einstaklingar af handahófi í hvert dæmi fyrir sig en miðað er við að þeir hafi verið í lyfjaskömmtun í að minnsta kosti 11 mánuði árið 2012.

Útreikningarnir sýna áhrif nýja greiðsluþátttökukerfisins á lyfjakostnað einstaklinga en einungis eru tekin lyf sem falla undir almenna greiðsluþátttöku og verða þar með niðurgreidd. Hafi einstaklingur leyst út lyf í öðrum apótekum kemur það ekki fram í þessum tölum, en lyfjaskömmtunin gefur gott yfirlit yfir heildarlyfjanotkun einstaklinga og er því góður grunnur til skoða áhrif nýja greiðsluþátttökukerfisins.

Lyf sem Sjúkratryggingar Íslands niðurgreiða ekki í núverandi greiðsluþátttökukerfi eru undanskilin í þessum tölum enda verða þau ekki niðurgreidd í nýju greiðsluþátttökukerfi.