Nýtt greiðsluþátttökukerfi


Nýtt greiðsluþátttökukerfi lyfja tók gildi 4.maí 2013. Um er að ræða miklar breytingar á niðurgreiðslukerfi lyfja en mest var horft til sambærilegs kerfis í Danmörku við þessar breytingar.

Í núverandi kerfi reiknast greiðsluþátttaka við hverja lyfjaávísun og greiðir sjúkratryggður tiltekið hlutfall af verði lyfsins fyrir hverja lyfjaávísun, en ekkert hámark er á heildarlyfjakostnaði sjúkratryggðra.

Í nýju kerfi eykst greiðsluþátttaka sjúkratrygginga í þrepum (sjá töflu á vef Sjúkratrygginga Íslands) eftir því sem heildarkostnaður eða uppsafnaður lyfjakostnaður sjúkratryggðs eykst, á tólf mánaða tímabili.
Með þessu kerfi er þeim sem nota mest af lyfjum tryggð meiri greiðsluþátttaka sjúkratrygginga en þeim sem nota minna af lyfjum. Þegar ákveðnu hámarki er náð í lyfjakostnaði greiða Sjúkratryggingar Íslands allan lyfjakostnað, en það á einugis við um lyf sem SÍ niðurgreiðir. Þar sem niðurgreiðsla lyfja hefst ekki fyrr en í 2. þrepi má gera ráð fyrir að mörgum reynist erfitt að greiða upphafsgreiðsluna sem er nú 22.000 kr. / 14.500 kr. 

Eitt af meginmarkmiðum með þessum breytingum er að gera greiðsluþátttöku lyfja óháða sjúkdómum ásamt því að jafna lyfjakostnað á milli sjúkratryggðra og elli-/örorkulífeyrisþega. Til dæmis verða sykursýkis- og krabbameinslyf ekki lengur að fullu greidd af sjúkratryggingum heldur falla þau inn í almenna greiðsluþátttöku eins og önnur lyf.

Nánari útskýringar á ýmsum breytingum í tengslum við nýja greiðsluþátttökukerfið ásamt reiknivél er að finna hér til hliðar.