Verðkönnun ASÍ í apríl

26. apríl 2005

Heimild: heimasíða ASÍ www.asi.is - 25.4.2005


Allt að 71% munur á lausasölulyfjum
Allt að 71% munur var á hæsta og lægsta verði á lausasölulyfjum í verðkönnun sem verðlagseftirlit ASÍ gerði miðvikudaginn 20. apríl sl. Kannað var verð á 22 algengum tegundum lausasölulyfja og í flestum tilvikum reyndist talsverður verðmunur milli apóteka. Lyfjaver við Suðurlandsbraut var langoftast með lægsta verðið í könnuninni eða á 20 lyfjum af þeim 22 sem skoðuð voru.



Mestur reyndist munurinn á hæsta og lægsta verði af Paratabs verkjatöflum sem kostuðu minnst kr. 195 og mest kr. 334.  Á 16 af þeim 22 lyfjum sem könnuð voru, var meira en 30% verðmunur á hæsta og lægsta verði og í 6 tilvikum var yfir 50% munur.  Sem dæmi má nefna að 59% munur var á hæsta og lægsta verði af Loritin ofnæmislyfi sem kostaði mest kr. 656 og minnst kr. 412, 54% munur var á Strepsils hálstöflum sem kostuðu mest kr. 586 og minnst kr. 380 og tæplega 40% munur var á Nicotinell mint tyggigúmmíi. 

Könnunin var gerð í eftirfarandi 12 apótekum.  Apótekarinn Nóatúni 17, Apótekið Skeifunni 15, Árbæjarapótek Hraunbæ 102 b, Garðsapótek Sogavegi 108, Laugarnesapótek, Kirkjuteigi 21, Lyf og heilsa Háteigsvegi 1, Lyfja Lágmúla 5, Lyfjaval Þönglabakka 6, Nesapótek Eiðistorgi 17, Lyfjaver Suðurlandsbraut 22, Rimaapótek Langarima 21 og Skipholtsapótek Skipholti 50 b.

Af könnuninni er ljóst hægt er að spara talsverðar upphæðir með því að kynna sér verð og versla lausasölulyf þar sem verðið er lægst.

Verðkönnun Verðkönnun ASÍ á Lausasölulyfjum 20.4.2005 - Excel skjal
22.4.2005


Mikill munur á lyfjaverði milli apóteka
Mikill munur var á hæsta og lægsta verði nokkurra lyfseðilsskyldra lyfja sem verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð á í apótekum á höfuðborgarsvæðinu sl. miðvikudag.
Rimaapótek í Grafarvogi var í öllum tilvikum með lægsta verðið á þeim lyfjum sem skoðuð voru.
 Sett voru upp dæmi af tveimur einstaklingum:

 1.         50 ára karlmaður á tveimur lyfjum, mígrenalyfi (Imigran) og bólgueyðandi verkjalyfi (Voltaren Rapid).

 2.         69 ára kona, ellilífeyrisþegi á tveimur lyfjum, blóðþrýstingslyfi (Cozaar Comp) og sýklalyfi (Zitromax).

Heildarþátttaka TR í lyfjum karlsins var kr. 3.280 og hluti sjúklings gat hæst orðið  kr. 6.329 ef enginn afsláttur var veittur hjá apótekinu.  Í tveimur apótekum, Lyfjavali og Lyfjaveri var boðið ódýrara samheitalyfið Vóstar S áður en lyfið var skrifað út,  í stað Voltaren Rapid sem var á lyfseðlinum og í þeim tilvikum var það tekið með í niðurstöðunum.  Munurinn á hæsta og lægsta heildarverði á lyfjum karlsins var kr. 1.514 eða 31%.  Lægst var verið í Rimaapóteki í Grafarvogi, kr. 4.815 og hæst í Laugarnesapóteki við Kirkjuteig, kr. 6.329.

Heildarþátttaka TR í lyfjum konunnar var kr. 7.885 og hluti sjúklings gat hæst orðið kr. 3.944 ef enginn afsláttur var veittur hjá apótekinu.  Í þremur apótekum, Apótekinu, Lyfjaveri og Rimaapóteki var veittur 100% afsláttur af hluta sjúklings í blóðþrýstingslyfinu Cozaar Comp og greiddi viðskiptavinurinn því ekkert fyrir það lyf í þessum apótekum.  Munurinn á hæsta og lægsta heildarverði á lyfjum konunnar var kr. 1.585 eða 75%. Lægst var verðið í Rimaapóteki kr. 2.115 og hæst í Garðsapóteki Sogavegi kr. 3.700.

Könnunin var gerð í eftirfarandi 12 apótekum.  Apótekarinn Nóatúni 17, Apótekið Skeifunni 15, Árbæjarapótek Hraunbæ 102 b, Garðsapótek Sogavegi 108, Laugarnesapótek, Kirkjuteigi 21, Lyf og heilsa Háteigsvegi 1, Lyfja Lágmúla 5, Lyfjaval Þönglabakka 6, Nesapótek Eiðistorgi 17, Lyfjaver Suðurlandsbraut 22, Rimaapótek Langarima 21 og Skipholtsapótek Skipholti 50 b.

Verðkannanir á lyfseðilsskyldum lyfjum eru unnar í samráði við Landlæknisembættið  og framkvæmdar þannig að lagðir eru fram lyfseðlar í apótekum en ekki er gefið upp að um verðkönnun sé að ræða fyrr en lyfin hafa verið skrifuð út og verð prentuð á pokamiða.  Þetta tryggir að raunverulegt verð til viðskiptavina komi fram í könnuninni.

Taka skal fram að hér er aðeins um verkönnun á fáum lyfjategundum að ræða sem ekki endurspeglar verð á öllum lyfjum í viðkomandi apótekum.  Niðurstöðurnar eru þó áminning neytenda um að það getur borgað sig bera saman verð og þjónustu milli apóteka. Einnig getur borgað sig að spyrja lyfsalann hvort til sé ódýrara samheitalyf en það sem læknir hefur ávísað þar sem þau geta oft verið talsvert ódýrari.

Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.
 
Verðkönnun Verðkönnun ASÍ á Lyfseðilsskyldum lyfjum 20.4.2005 - Excel skjal