Verðkönnun ASÍ í nóv

7. nóvember 2005

Heimild: heimasíða ASÍ www.asi.is

Oftast yfir 30% verðmunur á lausasölulyfjum

Yfir 30% munur var á hæsta og lægsta verði á 20 tegundum  lausasölulyfja í verðkönnun sem verðlagseftirlit ASÍ gerði í apótekum miðvikudaginn 1. nóvember sl. Kannað var verð á 29 tegundum algengra lausasölulyfja. Lyfjaver við Suðurlandsbraut reyndist oftast vera með lægsta verðið, eða í 23 tilvikum af 29 en Lyf og heilsa við Melhaga var oftast með hæsta verðið, eða í 18 tilvikum.



Mestur verðmunur í könnuninni var á 30 töflum af Paratabs sem voru dýrastar kr. 332 í Lyfju en ódýrastar kr. 195 í Lyfjaveri sem er rúmlega 70% verðmunur.  Einnig var mikill verðmunur á Otrivin unkonserveret nefúða sem var dýrastur kr. 475 í Lyf og heilsu og Skipholtsapóteki en ódýrastur kr. 308 í Lyfjaveri sem er tæplega 55% verðmunur.

1,7% lækkun frá því í apríl

Í síðustu verðkönnun verðlagseftirlitsins á lausasölulyfjum í apríl sl. var verð á 13 af þeim lyfjum sem könnuð voru nú einnig skoðað.  Verð þessara 13 lyfja hefur að meðaltali lækkað um 1,7% milli kannana.  Mest lækkun hefur orðið í Garðsapóteki við Sogaveg þar sem meðallækkunin er tæplega 12% frá því í síðustu könnun. Mest hækkun hefur hins vegar orðið hjá Lyf og heilsu þar sem verð þessara lausasölulyfja hefur hækkað um 1,7% að meðaltali frá því í apríl.

Laugarnesapótek neitaði þátttöku

Könnunin var gerð í eftirfarandi 10 apótekum: Apótekarinn Þönglabakka 1, Apótekið Hverafold 1-3, Árbæjarapótek Hraunbæ 102b, Garðsapótek Sogavegi 108, Lyf og heilsa Melhaga 20, Lyfja á Egilsstöðum, Lyfjaval Þönglabakka 6, Lyfjaver Suðurlandsbraut 22, Rimaapótek Langarima 21 og Skipholtsapótek Skipholti 50b.  Eitt apótek neitaði þátttöku í könnuninni, Laugarnesapótek við Kirkjuteig.
Sjá nánar í exelskjali.

Verðkönnun ASÍ Lausasölulyf - verðkönnun ASÍ excel skjal

2.11.2005


Mikill munur á lyfjaverði
Allt að 26% verðmunur var á verði nokkurra lyfseðilsskyldra lyfja í verðkönnun sem verðlagseftirlit ASÍ gerði í apótekum sl. þriðjudag.  Rimaapótek í Grafarvogi var oftast með lægsta verðið í könnuninni en Lyf og heilsa við Melhaga og Skipholtsapótek í Skipholti voru oftast með hæsta verðið.  Verðmunur á frumlyfi og samheitalyfi með sömu verkun var allt að 49% í könnuninni.


Sett voru upp dæmi af tveimur einstaklingum
1.        48 ára karlmaður á tveimur lyfjum, mígrenilyfi (Imigran) og bólgueyðandi verkjalyfi (Voltaren Rapid).
2.        7 ára barn á tveimur lyfjum, ofnæmislyfi (Clarityn) og asmalyfi (Ventolin).        
Heildarþátttaka TR í lyfjum karlsins var kr. 2.446 og hluti sjúklings í lyfjaverðinu gat hæst orið kr. 6.581 ef enginn afsláttur var veittur hjá apótekinu. Í tveimur apótekum, Apótekinu og Árbæjarapóteki var viðskiptavinunum boðið ódýrara samheitalyfið Vóstar S í stað Voltaren Rapid sem var á lyfseðlinum, áður en lyfið var skrifað út og í þeim tilvikum var það tekið með í niðurstöðunum. Heildarverðið á lyfjum karlsins var lægst í Rimaapóteki kr. 4.998 og hæst í Garðsapóteki kr. 5.985. Munurinn á hæsta og lægsta heildarverði var kr. 987 eða 20%.  Nokkuð minni munur er á hæsta og lægsta verði nú en var í könnun á sömu lyfjum í apríl sl. en þá reyndist 26% munurinn á heildarverðinu.

Heildarþátttaka TR í lyfjum barnsins var kr. 526 og hluti sjúklings í lyfjaverðinu gat hæst orðið kr. 5.081 ef enginn afsláttur var veittur hjá apótekinu.  Í sex apótekum af þeim tíu sem könnunin var gerð í var boðið ódýrara samheitalyfið Loritin í stað ofnæmislyfsins Clarityn sem var á lyfseðlinum. Þessi apótek voru: Apótekarinn, Apótekið, Árbæjarapótek, Garðsapótek, Lyfjaval og Rimaapótek. Heildarverðið á lyfjum barnsins var einnig lægst í Rimaapóteki kr. 3.481 en hæst í Lyf og heilsu við Melhaga og Skipholtsapóteki kr. 5.081. Munurinn á hæsta og lægsta verði var kr. 1.600 eða 46%.

Könnunin var gerð í eftirfarandi 10 apótekum: Apótekarinn Þönglabakka 1, Apótekið Hverafold 1-3, Árbæjarapótek Hraunbæ 102b, Garðsapótek Sogavegi 108, Lyf og heilsa Melhaga 20, Lyfja á Egilsstöðum, Lyfjaval Þönglabakka 6, Lyfjaver Suðurlandsbraut 22, Rimaapótek Langarima 21 og Skipholtsapótek Skipholti 50b.  Eitt apótek neitaði þátttöku í könnuninni, Laugarnesapótek við Kirkjuteig.

Verðlagseftirlitið gerir verðkannanir á lyfseðilsskyldum lyfjum í samráði við Landlæknisembættið og eru þær framkvæmdar þannig að lagðir eru fram raunverulegir lyfseðlar í apótekum án þess að gefið sé upp að um verðkönnun sé að ræða. Þetta er gert með það fyrir augum að tryggja að verð í könnuninni endurspegli raunverulegt verð til viðskiptavina.

Rétt er að taka fram að í verðkönnuninni er einungis mögulegt að kanna verð á fáum lyfjategundum sem endurspeglar ekki verð á öllum lyfjum í viðkomandi apóteki.  Neytendur eru þó hvattir til að nýta sér niðurstöðurnar sem áminningu um að gera verðsamanburð milli apóteka, auk þess sem það getur margborgað sig að spyrjast fyrir í apótekinu hvort til sé ódýrara samheitalyf í stað þess sem læknirinn hefur ávísað.

Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.
Sjá nánar í exelskjali hér að neðan.

Verðkönnun ASÍ Lyfseðilsskyld lyf - verðkönnun ASÍ 1-11-2005