Jólastyrkur til Faðms

Jólastyrkur til Faðms

19. desember 2008

Fréttatilkynning

18. desember 2008

Styrktarsjóðurinn Faðmur fær jólastyrk Lyfjavers


Katrín Júlíusdóttir alþingismaður og formaður styrktarsjóðsins Faðms tók í gær við jólastyrk Lyfjavers í húsakynnum apóteksins að Suðurlandsbraut 22. Faðmur, sem er styrktarsjóður á vegum samtakanna Heilaheilla, styrkir foreldra sem hafa fengið heilablóðfall og sem eru með börn 18 ára og yngri á framfæri sínu. Það var Aðalsteinn Steinþórsson framkvæmdastjóri Lyfjavers sem afhenti styrkinn sem er 250 þúsund krónur. Við það tækifæri sagði hann að um þessar mundir væru margir hópar sem þyrftu á aðstoð að halda og því hefði verið ákveðið að styrkja gott málefni í stað þess að senda jólakveðjur til viðskiptavina Lyfjavers. Taldi hann Faðm vel að styrknum kominn.

Katrín Júlíusdóttir segir að styrktarsjóðurinn Faðmur sé ekki hefðbundinn framfærslusjóður heldur sé honum ætlað að mæta bæði þekktum og óvæntum útgjöldum vegna barna á heimilum þar sem foreldri hefur orðið fyrir heilablóðfalli. Hún segir að framlag Lyfjavers komi sér mjög vel því sjóðurinn sé ungur og tiltölulega óþekktur og í núverandi árferði sé ekki auðvelt að safna í slíkan sjóð þótt þörfin sé brýn. Katrín bendir á að árlega fá um 600 Íslendingar heilablóðfall og áætlað sé að um 10% þess hóps séu foreldrar með börn á framfæri. „Þótt þessi sjúkdómur hafi fyrst og fremst verið tengdur við eldri aldurshópa þá er staðreyndin samt sú að fólk á öllum aldri er að fá hann. Að fá heilablóðfall er þungbær reynsla fyrir alla, en ekki síst fyrir fólk sem hefur fyrir börnum að sjá því oft fylgir honum verulegt tekjutap og í sumum tilvikum jafnvel viðvarandi fötlun. Þess vegna teljum við mikilvægt að geta létt undir með þessum foreldrum þannig að þau geti komið betur til móts við þarfir barna sinna,“ segir Katrín Júlíusdóttir formaður styrktarsjóðsins Faðms.