Neytendur ánægðir með verð og þjónustu Lyfjavers

3. mars 2009

 Hugsað um neytendur!? Hugsað um neytendur!?

Erla Magna sendi staðgengli umboðsmanns neytenda tölvupóst sem minnir á fyrirtaks fjölskyldumynd frá Disney-fabrikkunni á þann hátt að hann byrjar illa en endar dásamlega vel. Gjörðu svo vel, Erla:

“Það er fátt sem gleður íslenska neytendur þessa dagana og virðist verð hafa margfaldast þótt gengið rúlli upp og niður. Við fáum bara hækkanirnar. En - svo fór ég í apótekið Lyfjaver á Suðurlandsbraut í gær og sótti þrjár gerðir lyfja. Þrátt fyrir lyfjakort hef ég undanfarið ár borgað um 4 til 5.000 krónur fyrir þessi lyf, hvar sem ég hef keypt þau. Í Lyfjaveri á Suðurlandsbraut borgaði ég 1.500 krónur, og þar af voru sum með 40 prósenta afslætti. Þar er hugsað um neytendur.”



Það er svo sem alls ekkert nýtt að Lyfjaver beri höfuð og herðar yfir önnur apótek þegar kemur að ásættanlegu verði á nauðsynlegum lyfjum. En sjaldnast er góð vísa of oft kveðin. Staðgengill vonar að Lyfjaver standi áfram vörð um litla neytandann.

(Kjartan Guðmundsson er staðgengill umboðsmanns neytenda)