Augnlyf

Þau augnlyf sem fást í lausasölu hér á landi eru annars vegar ofnæmislyf og hins vegar gervitár og aðrar óvirkar samsetningar við augnþurrki.

Verkun þessara lyfja er mjög staðbundin og eru aukaverkanir ekki algengar.  Helst er hætta á sviða, roða, ertingu og mögulega ofnæmi fyrir innihaldsefnum.

Augndropar geta mögulega valdið vægri þokusýn fyrst eftir ísetningu.

Ekki er æskilegt að nota augndropa lengur en í 1 mánuð eftir að umbúðir hafa verið rofnar þrátt fyrir að valin hafi verið tegund sem inniheldur rotvarnarefni.

Sumir hafa ofnæmi fyrir  rotvarnarefnum og skyldi þá velja tegund án rotvarnarefna.  Athuga skal að rotvarnarefnið benzalkónklórið skemmir linsur og ráðlagt er að bíða amk 15 mínútur eftir að slíkir dropar hafa verið notaðir þar til linsur eru settar í augu.

 

Ofnæmisaugndropar 

 Eru notaðir við ofnæmiseinkennum frá augum eins og augnroða, þrota í augum, rennsli úr augum og augnkláða.  Droparnir eru ætlaðir til skammtímameðferðar við frjókornaofnæmi.

Fáanlegar eru tvær tegundir án lyfseðils : Livostin og Zaditen- með eða án rotvarnarefna.

 

Gervitár

Gervitár innihalda ekki virk lyfjaefni heldur vatnsleysanlegar fjölliður.  Þau eru rakagefandi og mýkjandi fyrir yfirborð augans og eru notuð til að draga úr einkennum augnþurrks.

Augnþurrkur getur lýst sér sem sviði í augum, tilfinning fyrir að korn sé í auganu, ljósfælni, mikið blikk augna og  kemur fram t.d. við þreytu, í vindi og þegar heitt er.

Til eru nokkrar mismunandi tegundir gervitára og eru þeir af mismunandi þykkt.  Eftir því sem gervitáradropar eru seigari því lengur haldast þeir í auganu og henta t.a.m. vel til notkunar yfir nótt. Gervitáradropar fást með eða án rotvarnarefna.

Skráðir gervitáradropar/gel gegn augnþurrki eru: Artelac augndropar, Dacriosol augndropar, Oculac augndropar með eða án rotvarnarefna, Oftagel augnhlaup og Vidisic augnhlaup. 

Aðrir augndropar sem eru fáanlegir en flokkast ekki sem lyf eru: Hylo gel, Ocutears, Systane, Tears again, Thera Tears, Thealoz, Vismed.