Sníklalyf

Lyf við algengum sníklum, njálg, höfuðlús, flatlús og kláðamaur fást í lausasölu. Mikilvægt er að fylgja leiðbeiningum lyfsins til hins ýtrasta þar sem röng notkun getur aukið líkur á að fram komi stofnar sníkla sem eru ónæmir fyrir lyfjunum. Smit berast auðveldlega milli manna og því rétt að láta alla aðila í nánasta umhverfi vita af sýkingu sem kemur upp og þá sérstakelga í skólum og leikskólum.

Lyf gegn sníklum í lausasölu eru:

Lús

Tenutex áburður

Nix hársápa

Prioderm húðlausn

Prioderm hársápa

Kláðamaur

Tenutex áburður

Njálgur

Vanquin töflur


Njálgur

Njálgur er mjög smitandi og berst egg um munn frá smituðum einstaklingi, fötum, sængurfötum o.fl. Egg geta lifað í allt að þrjár vikur við hefðbundnar heimilisaðstæður. Nauðsynlegt er að taka inn tvo skammta af lyfinu. Fyrri skammturinn drepur lifandi orma og síðari skammturinn er tekinn u.þ.b. tíu dögum seinna og drepur þá orma sem enn voru egg við fyrri skammtinn. Alltaf skal meðhöndla alla í fjölskyldunni. Aukaverkanir eru helst óþægindi í meltingarvegi.

Lús

Höfuðlús er sníkill sem lifir í hári og sýgur blóð úr hársverði. Ekki fá allir einkenni (kláða) við smit en einkenni koma fram vegna ofnæmis fyrir munnvatni lúsarinnar. Lýs lifa í um 30 daga í hársverði en eru mjög skammlífar utan hans (klukkustundir) og smitast því helst með beinni snertingu. Best er að greina smit með því að kemba blautt hár yfir hvítu blaði eða spegli. Aðeins skal meðhöndla þá fjölskyldumeðlimi sem greinast með smit en meðhöndla alla á sama tíma. Mikilvægt er að fylgja leiðbeiningum lyfja sem notuð er við meðhöndlun þar sem lýsnar geta myndað ónæmi gegn lyfjunum.
Flatlús er minni en höfuðlús og er helst að finna í nára. Einnig eru dæmi um að hún finnist í augabrúnum, skeggi og undir höndum. Meðhöndla skal flatlús með sambærilegum hætti og höfuðlús.

Nánari upplýsingar um höfuðlús má finna á hér.
Nánari upplýsingar um flatlús má finna hér.

Kláðamaur

Kláðamaur verpir eggjum undir þunna húð, hann sést ekki með berum augum en þó geta komið fram litlir blettir á húð þar sem eggin eru. Egg undir húð valda miklum kláða. Tenutex húðfleyti er eina lyfið í lausasölu gegn kláðamaur. Gæta þarf þess að bera áburðinn á allan líkamann, kláði hverfur ekki strax eftir meðferð þó meðferðin hafi heppnast.
Nánari upplýsingar um kláðamaur má finna hér.
Aukaverkanir af lyfjum við lús og kláðamaur eru sjaldgjæfar en helst ber að nefna óþægindi frá húð.